Innherji

Gjald­eyr­is­forð­inn verð­ur ekki nýtt­ur til að styðj­a við Ten­er­ife-ferð­ir lands­mann­a

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði að þegar kjölfesta verðbólguvæntinga minnkar verði „fyrirstaðan“ fyrir verðhækkunum minni. Líkur aukist á að fyrirtæki velti öllum kostnaðarhækkunum „beint út í verðlag“ og þegar gengi krónu lækki verði auknum kosnaði sem það valdi „sparkað inn í verðlagið“.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði að þegar kjölfesta verðbólguvæntinga minnkar verði „fyrirstaðan“ fyrir verðhækkunum minni. Líkur aukist á að fyrirtæki velti öllum kostnaðarhækkunum „beint út í verðlag“ og þegar gengi krónu lækki verði auknum kosnaði sem það valdi „sparkað inn í verðlagið“. Vísir/Vilhelm

Seðlabankastjóri sagði að ef þjóðin haldi áfram að eyða af sama krafti gæti það þýtt að krónan verði að veikjast til að afla frekari útflutningstekna. Hann vakti athygli á í samhengi við veikari krónu, að það væri „gríðarlegur“ vöruskiptahalli vegna mikillar einkaneyslu, sem birtist meðal annars í tíðum ferðum landsmanna til Teneriffe. 

Seðlabankinn grípi inn í gjaldeyrismarkað til að mýkja sveiflur en hann muni ekki nýta gjaldeyrisforðann til að halda uppi gengi krónu ef „við verðum með undirliggjandi viðskiptahalla“ heldur verði stýrivextir hækkaðir til að koma böndum á neysluna. Að mati Seðlabankans væri krónan, sem sé á sama stað og um áramót, á „tiltölulega góðum stað“ núna.

Þetta kom fram á fundi Seðlabankans í morgun þar sagt var frá forsendum stýrivaxtahækkunar. Eins og Innherji greindi frá í morgun hækkaði Seðlabankinn stýrivexti um 0,25 prósentur í sex prósent og vísaði meðal annars til meðal annars til þess að undirliggjandi verðbólga hafi áfram aukist og vísbendingar séu um að kjölfesta verðbólguvæntinga í markmið Seðlabankans hafi veikst.

Ásgeir sagði á fundinum að þegar kjölfesta verðbólguvæntinga minnkar verði „fyrirstaðan“ fyrir verðhækkunum minni. Líkur aukist á að fyrirtæki velti öllum kostnaðarhækkunum „beint út í verðlag“ og þegar gengi krónu lækki verði auknum kosnaði sem það valdi „sparkað inn í verðlagið“.

Að hans sögn skipti þetta máli fyrir næstu kjarasamninga. „Ef verðbólguvæntingar eru veikar fyrir verðum öllum launahækkunum ýtt út í verðbólgu – eins og þetta var í gamla daga,“ benti Ásgeir á.

Af þeim sökum skipti það miklu máli, að sögn hans sögn, að aðilar vinnumarkaðarins semji á þá vegu að halda verðbólguvæntingum í skefjum þannig að kaupmáttur fólks geti aukist. „Við höfum áhyggjur af þessu,“ sagði hann.

Ásgeir sagði að stýrivextir væru „þrátt fyrir allt“ tiltölulega lágir. Þeir séu sex prósent á sama tíma og verðbólga sé 9,4 prósent. Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri benti á að stýrivextir væru „enn neikvæðir“.

Ásgeir telur að það aðhald sé nægilegt til að ná verðbólgu í 2,5 prósent á ásættanlegum tíma. Seðlabankinn muni þó hækka stýrivexti ef þróun efnahagsmála kalli á það. „Við gerum það ekki nema nauðsyn beri til. Það er ekki gleðiefni,“ sagði hann og nefndi að því minna sem yrði að beita stýrivaxtahækkunum því minna myndi það kosta hagkerfið. Þar skipti meðal annars máli hvernig samið verði í kjarasamningum og hvort það dragi úr einkaneyslu því annars þurfi að koma böndum á hana.

„Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um þróun vaxta á næstu misserum,“ sagði í yfirlýsingu Peningastefnunefndar.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá bankans verður hagvöxtur 5,6 prósent í ár. Horfur fyrir næsta ár hafa batnað og er nú spáð 2,8 prósenta hagvexti í stað 1,9 prósent í fyrri spá bankans frá því í ágúst. Skýrist það af horfum um hraðari vöxt innlendrar eftirspurnar en áður var talið. Spenna á vinnumarkaði er enn töluverð þótt heldur hafi dregið úr henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×