Fótbolti

Sara Björk fagnaði sigur­markinu sínu með til­þrifum: „Stór­kost­leg til­finning“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar hér markinu sem hún skoraði á sjöttu mínútu í uppbótatíma og tryggði Juventus með því sigurinn.
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar hér markinu sem hún skoraði á sjöttu mínútu í uppbótatíma og tryggði Juventus með því sigurinn. Getty/Claudia Greco

Sara Björk Gunnarsdóttir tryggði Juventus 2-1 sigur á Parma í ítölsku deildinni um helgina en Juventus skoraði bæði mörkin sín í leiknum í uppbótatíma.

Parma konur voru nefnilega 1-0 yfir þegar 90 mínútur voru komnar á klukkuna. Mark Parma liðsins kom strax á nítjándu mínútu og Juve liðið var því undir í meira en sjötíu mínútur.

Lisa Boattin jafnaði metin á annarri mínútu uppbótatímans og Sara Björk skoraði síðan sigurmarkið á 90+6 mínútu eftir frábæra sókn.

Sara Björk fékk brjóstkassasendingu frá Cristianu Girelli og skoraði með frábæru vinstri fótar skoti upp í bláhornið.

Sara og félagar hennar fögnuðu markinu náttúrulega gríðarlega enda að tryggja sér sigur á síðustu sekúndunni.

Sara Björk var tekin í viðtal á samfélagsmiðlum Juventus kvenna eins og sjá má hér fyrir neðan en þar má einnig sjá markið og fögnuðinn.

„Tilfinning að skora þetta mark,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir brosandi í upphafi viðtalsins.

„Það var léttir að skora þetta mark því þetta var eitthvað sem við vorum að bíða eftir og við höfðum haldið áfram að sækja allan leikinn,“ sagði Sara Björk.

„Boattin náði að jafna metin fyrir okkur og það var algjörlega stórkostleg tilfinning að skora sigurmarkið,“ sagði Sara Björk

„Þetta var erfiður leikur en mér fannst við eiga þetta skilið. Frábær tilfinning,“ sagði Sara eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×