Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum með þrjá sigra hvort um miðbik töflunnar. Skoon tryggði SAGA hnífalotuna með tvöfaldri fellu og fékk SAGA því að byrja í vörn. Breiðablik sótti þó af krafti í upphafi og vann fyrstu tvær loturnar áður en SAGA jafnaði leika.
Upp frá því var leikurinn kaflaskiptur þar sem Breiðablik raðaði inn lotunum. Viruz var öflugur á vappanum og Breiðablik hafði stjórnina á útisvæðinu. Staðan var því orðin 8-2 fyrir Breiðablik þegar röðin kom að SAGA að taka nokkrar lotur í röð. WZRD hélt sprengjusvæðinu vel og nýtti mistök Breiðabliks til að skapa SAGA tækifæri.
Staða í hálfleik: Breiðablik 8 – 7 SAGA
Útlitið var gott þegar SAGA vann fyrstu þrjár loturnar í síðari hálfleik og komst þannig yfir í fyrsta sinn í leiknum. Um leið og Breiðablik gat vopnast lokaði liðið á hraðar árásir SAGA og var Viruz enn ískaldur á vappanum og hafði oftast betur gegn ADHD. Vel staðsettar sprengjur frá Breiðablik héldu vörninni þéttri.
SAGA keyrði mikið á hraðanum en það hreinlega borgaði sig alltof sjaldan og ljóst að liðið þarf að geta bryddað upp á einhverju öðru þegar á reynir. Furious fór að hitta einstaklega vel og skilaði það sér í því að Breiðablik komst aftur á beinu brautina og stóð uppi sem sigurvegari að lokum.
Lokastaða: Breiðablik 16 – 11 SAGA
Með sigrinum smeygði Breiðablik sér upp fyrir SAGA á töflunni en bæði lið eiga erfiða leiki framundan þegar liðin mæta Dusty og Þór.
Hér má sjá glæsilega takta Viruz í 10. lotu leiksins:
Næstu leikir liðanna:
- SAGA – Dusty, fimmtudaginn 3. nóvember kl. 19:30
- Þór – Breiðablik, fimmtudaginn 3. nóvember kl. 21:30
Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.