Þetta er í annað sinn á ferlinum sem að Rashford er valinn leikmaður mánaðarins. Hann skoraði tvö mörk og átti stoðsendingu á Antony í 3-1 sigrinum gegn Arsenal, eftir að hafa einnig lagt upp mark fyrir Jadon Sancho í 1-0 útisigri á Leicester.
Rashford hafði áður fengið viðurkenninguna eftir janúar 2019.
Hollendingurinn Erik Ten Hag var valinn besti knattspyrnustjóri mánaðarins, á aðeins sínum öðrum mánuði í deildinni.
Always a team effort. #MUFC || @PremierLeague pic.twitter.com/5DP60aPN3d
— Manchester United (@ManUtd) September 30, 2022
Lítið var spilað í ensku úrvalsdeildinni í september vegna landsleikjahlés og andláts Elísabetar Bretlandsdrottningar. Leikjum United við Crystal Palace og Leeds var báðum frestað vegna andlátsins.
Rashford er hins vegar í kapphlaupi við tímann um að ná Manchester-slagnum við City á sunnudaginn en hann er að jafna sig af meiðslum og hefur ekki getað æft í vikunni. Hann var því ekki í enska landsliðshópnum sem lék í Þjóðadeildinni í vikunni og í síðustu viku.
United á nú fyrir höndum þétta leikjadagskrá en liðið spilar níu leiki í október og svo fjóra leiki til viðbótar áður en HM-hléið tekur við um miðjan nóvember.