Það þýðir að meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, eru því 5,5 prósent. Hafa þeir ekki verið hærri frá því í ágúst 2016.
Á kynningunni munu Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu og staðgengill formanns, og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, gera grein fyrir yfirlýsingu peningastefnunefndar og kynna efni Peningamála.
Horfa má á útsendinguna hér fyrir neðan.
Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar segir að verðbólguhorfur hafi áfram versnað. Þannig hafi verðbólga aukist í júlí og mælst 9,9 prósent. Gert sé ráð fyrir að hún nái hámarki undir lok ársins í tæplega 11 prósent. Telur nefndin líklegt að enn þurfi herða taumhald peningastefnunnar til að tryggja að verðbólg hjaðni innan ásættanlegs tíma.
„Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.“