Miðillinn segir að verðmiðinn á De Jong sé of hár auk þess sem Casemiro hafi verið varakosturinn færi svo að ekki tækist að fá Hollendinginn.
Vika er í að félagaskiptaglugginn lokist en í allt sumar hefur De Jong verið orðaður við United og í síðustu viku sagði spænska blaðið Sport að United ætlaði að gera eina lokatilraun til að fá leikmanninn. Nokkrum dögum síðar fékk félagið hins vegar Casemiro frá Real Madrid.
Samkvæmt The Athletic leggja United-menn núna höfuðáherslu á að styrkja sóknarleik sinn með því að fá annan Brasilíumann, Antony, frá Ajax. Hollensku meistararnir eru sagðir búast við betrumbættu tilboði frá United eftir að enska félagið gerði 80 milljóna evra tilboð í síðustu viku. Ajax er sagt vilja fá 100 milljónir evra, jafnvirði 14 milljarða króna.
Ef samningar nást ekki varðandi Antony er United einnig með Cody Gakpo hjá PSV og Christian Pulisic hjá Chelsea í sigtinu.