Réttarhöldin fóru fram bak við luktar dyr svo hvorki almenningur né fjölmiðlar gátu fylgst með. Þá var lögmönnum hennar bannað af dómnum að tjá sig nokkuð um framvindu málsins.
Suu Kyi var ákærð í fjórum liðum, meðal annars fyrir að hafa misnotað stöðu sína til að leigja land í almannaeigu undir markaðsverði og fyrir að hafa byggt sér húsnæði fyrir peninga sem renna áttu til góðgerðamála. Suu Kyi neitaði sök í öllum ákæruliðum og gert er ráð fyrir að lögmenn hennar muni áfrýja málinu.
Suu Kyi afplánar þegar fangelsisdóm fyrir uppreisnaráróður, spillingu og aðrar meintar sakagiftir. Hún var sótt til saka fyrir ýmis meint brot eftir að henni og ríkisstjórn hennar var bolað frá völdum af mjanmarska hernum og hún handtekin í febrúar 2021.
Sérfræðingar segja að dómsmál gegn henni séu tilraun herforingjastjórnarinnar til að réttlæta valdaránið og til þess að koma í veg fyrir að hún geti tekið áfram þátt í stjórnmálum en herinn hefur heitið því að blása til kosninga frá því að hann tók völd.
Suu Kyi og aðrir lýðræðislega kjörnir stjórnmálamenn, sem sóttir hafa verið til saka, hafa neitað sök í öllum þeim ásökunum sem bornar hafa verið á hendur þeirra. Talið er líklegt að lögmenn þeirra muni áfrýja dómunum á næstu dögum.