Heimalið Katar átti að mæta Ekvador í þriðja leik fyrsta keppnisdags HM, 21. nóvember. Nú hefur verið ákveðið að færa leikinn fram um einn dag og mótið hefst því degi fyrr en áætlað var.
Leikur Katara og Ekvadora á Al Bayt leikvanginum í Al Khor verður því eini leikur dagsins 20. nóvember og þar af leiðandi upphafsleikur HM í staðinn fyrir leik Afríkumeistara Senegala og Hollendinga.
Þrír leikir verða á dagskrá á öðrum keppnisdegi HM: Senegal og Holland mætast í A-riðli og England og Íran og Bandaríkin og Wales í B-riðli.
Leikurinn 20. nóvember verður ekki bara upphafsleikur HM 2022 heldur fyrsti leikur Katara á heimsmeistaramóti.
HM lýkur með úrslitaleik á Lusail leikvanginum 18. desember.