Handbolti

Línumannshallæri hjá Haukum - Aron Rafn ekki byrjaður að æfa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Dan Hlynsson varð fyrir því óláni að slíta krossband á æfingu með Haukum.
Gunnar Dan Hlynsson varð fyrir því óláni að slíta krossband á æfingu með Haukum. vísir/hulda margrét

Haukar eru í leit að línumanni fyrir átökin í Olís-deild karla í vetur. Tveir línumenn liðsins eru með slitið krossband.

Þráinn Orri Jónsson missti af seinni hluta síðasta tímabils eftir að hann sleit krossband í hné í leik með íslenska landsliðinu á EM í janúar.

Til að fylla hans skarð kölluðu Haukar Gunnar Dan Hlynsson til baka úr láni frá Gróttu. Hann kláraði síðasta tímabil með Haukum en sleit krossband á æfingu í síðustu viku. Þetta staðfesti hann í samtali við handbolta.is.

Heimir Óli Heimisson, aðallínumaður Hauka undanfarin ár, hefur ekkert æft með liðinu í sumar og því er liðið nánast línumannslaust þegar nokkrar vikur eru í mót.

„Við þurfum að finna einhverja lausn en það er ekkert í hendi. Það er nærtækast að heyra í Heimi þegar svona ástand er,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Hauka, í samtali við Vísi í dag.

Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson hefur ekkert æft með Haukum síðan í apríl vegna höfuðhögg. Hann fékk þá skot í höfuðið á æfingu. Þetta var þriðji heilahristingur Arons á síðustu fimm árum.

„Hann er í meðhöndlun. Það hafa verið framfarir en samt ekki nóg. Það er alls óvíst hvað verður. Það þarf að gefa þessu nokkrar vikur í viðbót,“ sagði Rúnar. Stefán Huldar Stefánsson og Magnús Gunnar Karlsson vörðu mark Hauka eftir að Aron Rafn féll úr skaftinu á síðasta tímabili.

Rúnar tók við þjálfun Hauka af Aroni Kristjánssyni í sumar. Á síðasta tímabili enduðu Haukar í 2. sæti Olís-deildarinnar og féllu úr leik fyrir ÍBV, 3-1, í undanúrslitum úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×