Formúla 1

Alpine kynnti eftirmann Alonso án þess að fá samþykki hans: „Þetta er rangt“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Oscar Piastri fær tækifærið í Formúlu 1 á næsta tímabili.
Oscar Piastri fær tækifærið í Formúlu 1 á næsta tímabili. Mark Thompson/Getty Images

Fyrr í dag sendi Alpine-liðið í Formúlu 1 frá sér tilkynningu þar sem Oscar Piastri, varamaður liðsins, myndi taka sæti tvöfalda heimsmeistarans Fernando Alonso. Piastri segir það þó rangt og að hann muni ekki aka fyrir liðið á næsta tímabili.

Eftir að Fernando Alonso ákvað að skrifa undir samning við Aston Martin fyrir næsta tímabil þurfti Alpine að leita að eftirmanni Spánverjans. Hinn 21 árs gamli Piastri, ríkjandi meistari í Formúlu 2, virtist hafa verið valinn í hans stað og Alpine sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem núverandi varamaðurinn var kynntur.

Ökumaðurinn sjálfur virtist þó ekki hafa hugmynd um það að hann væri að fara að aka fyrir liðið á næsta tímabili. Hann hefur nú neitað því að hafa skrifað undir samning við liðið og segir í færslu á Twitter-síðu sinni að hann muni ekki aka fyrir Alpine á næsta tímabili. Piastri segir að Alpine hafi ekki fengið leyfi til að staðfesta samninginn.

 „Ég sé að Alpine F1 hefur sent frá sér fréttatilkynningu án míns samþykkis þar sem kemur fram að ég muni aka fyrir þá á næsta ári,“ ritaði Piastri.

„Þetta er rangt og ég hef ekki skrifað undir samning við Alpine fyrir árið 2023. Ég mun ekki aka fyrir Alpine á næsta ári.“

Piastri hafði verið í viðræðum við McLaren áður en sæti hjá Alpine-liðinu losnaði. Framtíð Daniel Ricciardo hjá McLaren er í lausu lofti og því höfðu hinir ýmsu velt fyrir sér hvort Piastri væri að taka hans sæti í liðinu.

Alpine-liðið telur hins vegar að samningur Piastri við liðið geri honum skylt að aka fyrir liðið á næsta ári. Samkvæmt heimildum Sky Sports rann sú klásúla í samningi hans hins vegar út fyrir tveimur dögum, þann 31. júlí, en það hefur þó ekki enn verið staðfest af talsmönnum Alpine.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×