Karólína Lea sló einnig met íslenska landsliðsins yfir að vera fljótust til að skora í leik á EM.
Karólína er einnig fyrsti leikmaður Íslands til að bæði skora mark og gefa stoðsendingu á sama Evrópumóti.
Fyrir leikinn í gær var Dagný Brynjarsdóttir yngsti markaskorari Íslands á EM frá upphafi.
Dagný var 21 árs, 11 mánaða og 7 daga þegar hún tryggði Íslandi sigur á Hollandi og sæti í átta liða úrslitunum á EM í Svíþjóð 2013.
Karólína Lea var aðeins 20 ára, 11 mánaða og 6 daga þegar hún skoraði í gær.
Markið hennar Karólínu kom strax á þriðju mínútu og þar með sló hún líka met Hólmfríðar Magnúsdóttur frá því á EM í Finnlandi 2009.
Hólmfríður skoraði eftir aðeins sex mínútna leik í fyrsta leik EM á því móti en það reyndist vera eina mark íslenska liðsins á mótinu.