Í nýlegri alþjóðlegri könnun sem McKinsey gerði sýna niðurstöður að um 87% stjórnenda í atvinnulífinu telja vanta upp á einhverja þekkingu, sérhæfni eða getu innan sinna starfsmannateyma.
Fjórða iðnbyltingin og hraðar breytingar í kjölfar Covid eru ekki síst taldar skýra þetta út.
Spurningin er hins vegar: Hvernig getum við tekist á við þá stöðu að eitthvað vanti upp á? Því öll erum við jú sammála því að árangur vinnustaða byggir oftar en ekki á mannauðnum.
Að verða T-laga starfsmaður (e. T-shaped employee) er umræða sem er því að færast í aukana hjá erlendum miðlum og vefsíðum.
Fyrirsagnir eins og T-laga teymi eru framtíðin eða T-laga starfsmenn eru framtíðin eru ekki óalgengar yfirskriftir.
En hvað þýðir það að vera T-laga starfsmaður og hverjir eru kostirnir við að vera T-laga?
Í stuttu máli þýðir T-laga starfsmaður starfsfólk sem er með hæfni og getu til að gera margt, en er þó með sérstaka getu eða sérþekkingu á einhverju einu sviði.
Ef við værum að tala um T-laga teymi þýðir þetta til dæmis að T-laga teymi samanstendur af starfsfólki þar sem allir geta gengið í ólík verkefni, en um leið er hver og einn starfsmaður sérstaklega góð/ur á einhverju einu sviði.
Andstæðan við T-laga er þá sá starfsmaður sem er sérhæfður á einu sviði, en hefur ekki þekkingu eða getu til að geta gert margt annað. Eða starfsmaður sem getur sinnt mörgu, en býr ekki yfir sérþekkingu eða vinnur statt og stöðugt að því að nýta og þróa styrkleikana sína sérstaklega í starfi.
Á meðfylgjandi mynd af LinkdIn má sjá á ensku, hvernig T-laga starfsmaður og/eða andstaðan við T-laga starfsmann er skýrð út.

Kostirnir við að vera T-laga
En ef það er að færast í vöxt að tala um T-laga starfsmenn eða T-laga teymi sem framtíðina, hverjir eru helstu kostirnir fyrir okkur sjálf að verða T-laga?
Hér eru nokkur jákvæð atriði tekin saman.
1. Það er gott að vinna með þér
Þar sem þú hefur hæfni og getu til að sinna mörgum ólíkum verkefnum er auðvelt og gott að vinna með þér. Já, T-laga starfsmaður er hreinlega góður samstarfsfélagi enda hægt að leita til hans/hennar með margt.
2. Ástríðan þín og starfsánægja meiri
Það sem einkennir líka T-laga starfsmenn er áhugi, ástríða og meiri starfsánægja. Því öll verðum við oft leið eða þreytt á því ef við erum alltaf að gera það sama.
Að fá að spreyta sig á mörgum sviðum, samhliða því að efla okkur alltaf betur og betur á okkar eigin sérsviði, getur því gert vinnuna okkar skemmtilegri.
3. Sérþekkingin þín eflist og eflir sjálfstraustið
Á sama tíma og þú eflist sem starfsmaður vegna þess að þú ert að sinna mörgum ólíkum verkefnum, eflist sjálfstraust og ánægja vegna þess að þú ert alltaf að verða betri og betri á þínu sérsviði. Því einkenni T-laga starfsmanns er að halda áfram að læra, þróast og efla sig á sínu sviði.
Þú finnur um leið hvernig þú ert að nýta styrkleikana þína til fullnustu, en fátt annað getur gert mann jafn ánægðan í starfi og sú tilfinning.
4. Fleiri nýjar og spennandi hugmyndir
Það er staðreynd að þegar að við víkkum sjóndeildarhringinn erum við líklegri til að fá fleiri hugmyndir. Og jafnvel stærri, öðruvísi eða betri hugmyndir en áður. Að verða T-laga starfsmaður er líkleg leið til að efla sköpunarkraftinn í okkur.
5. Fólk sækist í félagsskapinn þinn
Þetta kann að hljóma skringilega en er auðvitað eitt af því sem er spennandi og jákvætt við að verða T-laga starfsmaður.
Það sem er átt við með þessu er að fólk sækist ósjálfrátt í samneyti við áhugavert fólk. Og það að teljast góður samstarfsfélagi, geta gert margt en vera þó sérstaklega góð/ur á einhverju einu sviði, vera hugmyndarík/ur og ánægð/ur í starfi og svo framvegis, gerir þig að áhugaverðri manneskju fyrir annað fólk að eiga í samskiptum við.
Ert þú T-laga?
Auðveldasta leiðin til að átta okkur á því hvort við teljumst T-laga starfsmaður er að fara aðeins yfir verkefnin okkar í vinnunni.
Erum við sérhæfð á einhverju sviði en stökkvum í mörgum ólík verkefni?
Hvar liggja styrkleikarnir okkar og erum við að nýta þá til fulls?
Er sérsviðið okkar örugglega á því sviði sem okkar áhugi liggur?
Finnst okkur gaman í vinnunni og erum við vinsæl sem samstarfsfólk?
Er eitthvað sem við viljum gera meira af til að gera starfið okkar fjölbreyttari eða okkur sjálf öflugri á okkar sérsviði?
Þá geta stjórnendur speglað sinn stjórnunarstíl með ofangreint í huga. Enda vilja sumir meina að það að efla T-laga teymi sé ekki aðeins líklegt til árangurs fyrir vinnustaðinn, heldur einnig leið til að sporna við þeirri þróun að sífellt fleira fólk er að taka ákvörðun um að segja upp og færa sig um set. Að efla sérsvið starfsmanna getur líka verið leið til að byggja upp þá færni sem stjórnendur telja vanta sbr. niðurstöður könnunar McKinsey.