Hagfræðideild Landsbankans birti í dag þjóðhags- og verðbólguspá sína fyrir árin 2022 til 2024 en Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, segir spá þeirra heldur bjartsýnni þar sem þau spá 5,1 prósent hagvexti í ár og byggir bjartsýnni spá að miklu leiti af komu erlendra ferðamanna til landsins.
Verðbólgan heldur þó áfram að hækka og er því spáð að verðbólgan nái hámarki á þriðja ársfjórðungi þessa árs og verði þá 8,4 prósent. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði yfir markmiði Seðlabankans út spátímann og því þurfi stýrivextir að hækka talsvert til að stemma stigu við þróuninni.
„Við teljum líklegt að þeir verði í kringum sex prósent við lok þessa árs, þessar verðhækkanir sem við sjáum sérstaklega á húsnæðismarkaði eru þess eðlis að það þarf að taka nokkuð stór skref til að kæla eftirspurnina á markaði,“ segir Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.
Íbúðaverð komið að þolmörkum og eftirspurn ætti að róast.
Íbúðaverð hefur hækkað mjög mikið undanfarið en samkvæmt nýjustu tölum nam hækkunin 2,7 prósentustigum milli mánaða.
„Við svona gerum ráð fyrir að það fari að koma að þolmörkum og við förum að sjá aðeins rólegri þróun á íbúðamarkaði í takt við hærri vexti,“ segir Una.
Gert er ráð fyrir 20 prósent hækkun á íbúðaverði í ár, átta prósent á næsta ári og fjögur prósent árið 2024. „Við gerum ráð fyrir því að eftir því sem vextir hækka og nýjar íbúðir koma inn á markaðinn, þá mun þetta ástand róast,“ segir Una.
„Við erum að spá því að íbúðafjárfesting aukist um tíu prósent milli ára í ár og átta prósent á næsta ári, þannig það er ýmislegt sem bendir til þess að það sé mikið magn íbúða í byggingu þannig það mun koma til með að róa aðeins þennan markað.“
„En svo er það líka bara að eftirspurnin róist aðeins og við gerum ráð fyrir því að það gerist þegar vextir hækka því að þessar miklu hækkanir sem við höfum séð núna upp á síðkastið, þær eru að miklu leyti drifnar áfram af verulega aukinni eftirspurn,“ segir Una.
Starfshópur sem forsætisráðherra skipaði í febrúar mun kynna niðurstöður sínar klukkan eitt í dag en hlutverk starfshópsins var að fjalla um leiðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Alls leggur hópurinn fram 28 tillögur í sjö flokkum.