Handbolti

Haukarnir hafa tapað fimm síðustu leikjum sínum í Eyjum í úrslitakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Haukur Baumruk þarf að eiga góðan leik í kvöld ætli Haukarnir að koma einvíginu í oddaleik.
Adam Haukur Baumruk þarf að eiga góðan leik í kvöld ætli Haukarnir að koma einvíginu í oddaleik. Vísir/Rakel Rún Garðarsdóttir

Haukar þurfa í kvöld að gera eitt sem þeim hefur ekki tekist undanfarin sex ár sem er að vinna leik í úrslitakeppni á móti ÍBV út í Vestmannaeyjum. Tap hjá Haukum í Eyjum í kvöld þýðir sumarfrí.

Haukar tryggðu sér annan leik í einvíginu og héldu sér á lífi með sigri í síðasta leik á heimavelli en þurfa nú að vinna annan leikinn í röð til að tryggja sér oddaleik á heimavelli.

Leikur ÍBV og Hauka í kvöld hefst klukkan 18.00 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Seinni bylgjunnar hefst klukkan 17.30 og hún gerir síðan leikinn upp eftir hann.

Síðasti sigurleikur Hauka á ÍBV út í Eyjum kom í undanúrslitunum vorið 2006. Haukarnir unnu þá 30-28 sigur í fjórða leiknum í einvíginu 1. maí og komust með því áfram í lokaúrslitin.

Eyjamaðurinn Hákon Daði Styrmisson var markahæstur í liði Hauka í þessum leik með átta mörk en þeir Janus Daði Smárason og Elías Már Halldórsson skoruðu báðir sex mörk. Enginn þeirra er ennþá í Haukaliðinu. Theodór Sigurbjörnsson skoraði mest fyrir ÍBV eða níu mörk.

Haukarnir unnu báða leiki sína í Eyjum í þessu undanúrslitaeinvígi liðanna voruð 2016 en frá og með því að ÍBV komst aftur upp í efstu deild árið 2013 þá hafa Eyjamenn unnuð sjö af níu leikjum liðanna í úrslitakeppni í Vestmannaeyjum.

Frá þessum leik í maí-mánuði fyrir sex árum þá hafa Eyjamenn unnið Haukana fimm sinnum í röð í úrslitakeppni.

Þeir unnu báða heimaleikina í undanúrslitaeinvíginu 2018 og endurtóku leikinn í undanúrslitaeinvígi liðanna árið eftir.

ÍBV vann síðan fjögurra marka sigur í fyrri leik liðanna út í Eyjum í þessu undanúrslitaeinvígi. Í þeim leik skoraði Rúnar Kárason átta mörk fyrir ÍBV og Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði fimm. Sigtryggur meiddist aftur á móti í leiknum og kom bara inn til að taka vítaskot í síðasta leik.

  • Haukar í Vestmanneyjum í úrslitakeppni
  • Undanúrslit 2022: 4 marka tap í leik tvö (23-27)
  • Undanúrslit 2019: 3 marka tap í leik fjögur (27-30)
  • Undanúrslit 2019: 2 marka tap í leik tvö (30-32)
  • Undanúrslit 2018 2 marka tap í leik þrjú (25-27)
  • Undanúrslit 2018: 2 marka tap í leik eitt (22-24)
  • Undanúrslit 2016: 2 marka sigur í leik fjögur (30-28)
  • Undanúrslit 2016: 1 marks sigur í leik tvö (34-33)
  • Lokaúrslit 2014: 7 marka tap í leik fjögur (20-27)
  • Lokaúrslit 2014: 2 marka tap í leik tvö (23-25)
  • Lokaúrslit 2005: 4 marka sigur í leik tvö (39-35)
  • Átta liða úrslit 2004: 4 marka sigur í leik tvö (39-35)
  • Átta liða úrslit 2000: 1 marks sigur í leik tvö (37-36, framl.)
  • Átta liða úrslit 1999: 5 marka sigur í leik þrjú (34-29)
  • Átta liða úrslit 1999: 5 marka tap í leik eitt (25-30)
  • -
  • Samantekt: 6 sigrar í fjórtán leikjum
  • - Hafa tapað fimm leikjum í röð
  • - Unnu sex af fyrstu níu leikjunum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×