Ten Hag yfirgefur Ajax eftir tímabilið og tekur við United af Ralf Rangnick. Hollendingurinn fær það erfiða verkefni að koma United aftur á toppinn eftir mögur ár síðan Sir Alex Ferguson settist í helgan stein.
Búist er við því að miklar breytingar verði á leikmannahópi United í sumar. Enskir fjölmiðlar greina frá því að Ten Hag horfi til átta leikmanna í hópnum sem hann getur treyst og byggt í kringum.
Meðal þeirra er Maguire. Enski landsliðsmaðurinn hefur ekki spilað vel á þessu tímabili en Ten Hag ku hafa trú á honum og ætlar að finna miðvörð sem getur spilað vinstra megin til að auðvelda Maguire lífið.
Rangnick hefur sagt að United þurfi allt að tíu nýja leikmenn, þar á meðal tvo til þrjá framherja. Hann hvatti hins vegar Ten Hag til að halda Cristiano Ronaldo, langmarkahæsta leikmanni United á tímabilinu.
United er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið mætir Brighton og Crystal Palace í síðustu tveimur leikjum sínum á tímabilinu.