Tottenham komst yfir með sjálfsmarki Sophie Ingle strax á 15. mínútu en Guro Reiten jafnaði fyrir Chelsea rúmum 10 mínútum síðar. Á 33. mínútu leiksins fær Ann-Katrin Berger, markvörður Chelsea, beint rautt spjald og Chelsea spilaði einum leikmanni færri það sem eftir lifði leiks.
Það kom þó ekki á sök því Samantha Kerr kom 10 leikmönnum Chelsea í forystu á 71. mínútu leiksins áður en Jessie Fleming klárar leikinn á fimmtu mínútu uppbótatíma síðari hálfleiks. Lokatölur 1-3 í leik þar sem leikmenn Chelsea skoruðu öll fjögur mörkin.
Með sigrinum er Chelsea komið með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar þegar liðið á þrjá leiki eftir af deildinni. Arsenal er í öðru sæti með 43 stig en á þó einn leik til góða á Chelsea. Tottenham er í 5. sæti með 28 stig.
Dagný Brynjarsdóttir spilaði allan leikinn á miðjunni hjá West Ham í 1-2 útisigri liðsins á Reading fyrr í dag. Emma Snerle og Yui Hasegawa koma West Ham í tveggja marka forystu með mörkum sínum í síðari hálfleik áður en Faye Bryson minnkar muninn á 95. mínútu leiksins.
West Ham er með sigrinum komið upp í 6. sæti deildarinnar með 27 stig en Reading er í 8. sætinu með 24 stig. Bæði lið eiga tvo leiki eftir í deildinni.