Eftir leikinn gegn Fram, sem Valur vann með tíu marka mun, 34-24, gaf Björgvin Páll í skyn að leikmenn Fram hefðu skotið viljandi í höfuð sitt.
„Ég átti von á að þeir myndu berja okkur í andlitið og ég átti von á því að þeir fengju rautt spjald. Ég átti von á því að fá boltann yfir hausinn og í hausinn. Þetta er það sama og gerðist í síðasta leik og það eru skýr skilaboð. Þeir ætla að fara þannig út,“ sagði Björgvin við mbl.is eftir leikinn á Hlíðarenda í gær.
„Annaðhvort gera þeir þetta viljandi eða eru svona lélegir. Ég veit þeir eru góðir handboltamenn, svo það hlýtur að vera það fyrra. Ég er búinn að fá fjögur skot í hausinn frá þeim í tveimur leikjum. Þeir vita að ég fékk skot í hausinn um daginn og það er um að gera að keyra á það þá. Þetta er mjög skynsamlegt hjá þeim. Það eru skýr skilaboð að skjóta yfir hausinn á mér eða í hausinn á mér. Þeir verða að svara fyrir það.“
Framkvæmdastjóri HSÍ sendi erindi fyrir hönd stjórnar sambandsins til aganefndar vegna ummæla Björgvins. Handknattleiksdeild Vals hefur frest til klukkan 11:00 til að skila inn greinargerð vegna málsins.
Annar leikur Vals og Fram verður í Safamýrinni á sunnudaginn kemur. Ef allt fer á versta veg gæti Björgvin Páll misst af leiknum. Með sigri í honum tryggja Valsmenn sér sæti í undanúrslitum.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Arnór Snær Óskarsson fengu báðir rautt spjald í leiknum á Hlíðarenda en sleppa við leikbann. Sömu sögu er að segja af Degi Arnarssyni, leikmanni ÍBV, sem var rekinn út af í sigrinum á Stjörnunni, 35-26, í Eyjum í gær.