Fyrir leik dagsins var Derby níu stigum frá öruggu sæti þegar aðeins 12 stig voru eftir í pottinum. Liðið þurfti því sárlega á stigum að halda í fallbaráttunni, en eftir að 21 stig var dregið af liðinu í haust eftir að félagið fór í greiðslustöðvun hefur brekkan verið brött.
Það var því eins og blaut tuska í andlitið þegar Luke Amos skoraði eina mark leiksins fyrir QPR á 88. mínútu eftir stoðsendingu frá Lyndon Dykes.
Niðurstaðan varð því 1-0 sigur QPR. Á sama tíma gerði Reading 4-4 jafntefli gegn Swansea og sá þar með til þess að Derby á ekki lengur möguleika á að halda sæti sínu í deildinni.