Stefán Árni Pálsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson hituðu upp fyrir 21. umferð Olís deildar karla í handbolta. Allir sex leikirnir í umferðinni hefjast klukkan 19:30 og verður stórleikur Vals og Hauka í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4.
Haukar eru með tveggja stiga forskot á Val á toppi Olís-deildarinnar. Með sigri á Hlíðarenda í kvöld tryggja Haukar sér deildarmeistaratitilinn. Annars ræðst það í lokaumferðinni á sunnudaginn hvaða lið verður deildarmeistari.
„Þetta er það sem við viljum sjá. Þetta verður stærsti leikur vetrarins í deildarkeppninni. Vonandi fáum við flottan og skemmtilegan leik, góða umgjörð og veisla fyrir handboltann,“ sagði Ásgeir Örn. Hann hefur meiri trú á sínum gömlu félögum í leiknum í kvöld.
„Ég held að Haukarnir vinni þennan leik og stígi upp. Það er mikil sigurhefð í Haukum og margir af leikmönnunum þekkja það að vinna þetta,“ sagði Ásgeir Örn.
KA, Afturelding, Grótta og Fram berjast um tvö laus sæti í úrslitakeppninni. Möguleikar Frammara eru þó langminnstir. Eftir að hafa unnið þrjá leiki í röð hafa Seltirningar sett mikla pressu á Mosfellinga í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Grótta sækir ÍBV heim í kvöld.
„Ég vona að þeir vinni Vestmannaeyingana og þá gætu þeir verið á leið í úrslitaleik við KA-menn í lokaumferðinni um að fara í úrslitakeppnina,“ sagði Ásgeir Örn en Grótta vann fyrri leikinn gegn ÍBV með tíu marka mun, 36-26.
Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá upphitun Stefáns Árna og Ásgeirs Arnar fyrir næstsíðustu umferðina.