Handbolti

Sebastian: Mín fyrstu viðbrögð eru ekki hæf í sjónvarpi

Dagur Lárusson skrifar
Sebastian Alexandersson, þjálfari HK, horfði upp á sína menn tapa enn einum leiknum í kvöld.
Sebastian Alexandersson, þjálfari HK, horfði upp á sína menn tapa enn einum leiknum í kvöld. Vísir/Vilhelm

Sebastian Alexandersson var allt annað en sáttur eftir tap HK á móti Stjörnunni í Olís deild karla í handbolta í kvöld. HK tapaði leiknum á endanum með sex mörkum, 27-21.

,,Ég er sem betur fer búinn að ná að róa mig aðeins niður svo ég sé ekki að fara að láta þig fá mín fyrstu viðbrögð eftir þennan leik, þau eru ekki hæf í sjónvarpi,” byrjaði Sebastian Alexandersson, þjálfari HK, að segja eftir leik.

,,Ég er mjög ánægður með liðið mitt, við skulum hafa það á hreinu. Við byrjuðum frábærlega í sókn og varnarleikurinn heilt yfir ágætur yfir allan leikinn. En þetta var enn einn leikurinn þar sem við fengum brottvísun á andstæðinginn en við fengum ekki boltann aftur. En svona er þetta, við erum orðnir vanir þessu því þetta er búið að vera svona í allan vetur,” hélt Alexander áfram og var þá að tala um dómgæsluna.

,,En mér fannst Arnór frábær í markinu hjá Stjörnunni og hann var að verja skotin sem við erum vanir að fá fullt af mörkum úr. Þeir gáfu okkur langt skotin, við tókum þau en hann varði þau og það er ekkert meira um það að segja.”

Sebastian var ósáttur með smáatriðin í spilamennsku síns liðs gegn Gróttu í síðasta leik en hann vildi meina að þau hafi verið flest öll í lagi í kvöld.

,,Varðandi smáatriðin þá erum við alltaf að taka skref í rétta átt. En mér fannst oft þegar þeir voru að lenda í vandræðum í sókninni þá komu þeir með sendingar í hornið sem við vorum ekki nógu vakandi að standa í sendingar leiðinni,” endaði Sebastian að segja eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×