Stefán Árni Pálsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson hituðu upp fyrir tuttugustu umferð Olís deildar karla í handbolta.
Fjórir leikjanna fara fram í kvöld og umferðin klárast síðan með tveimur leikjum á morgun. Þetta er þriðja síðasta umferð deildarkeppninnar og nú fara úrslitin að ráðast.
„Það styttist heldur betur í endalokin á deildarkeppninni og þetta er ennþá galopið. Nú fer hver einasti leikur að skipta heldur betur miklu máli. Það eru bara þrír leikir eftir,“ sagði Stefán Árni Pálsson.
„Það getur ýmislegt gerst ennþá. Það geta fullt að liðum orðið deildarmeistarar og svo verðum við að sjá hvernig þetta raðast í sætunum fyrir neðan líka. Það er mikið opið og þetta verður þrælskemmtilegt,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Haukar, Valur, ÍBV og FH geta orðið deildarmeistarar þótt að tveir tapleikir í röð hafi minnkað möguleika FH-inga mikið.
„Ef Valsarar klára sitt þá verða þeir deildarmeistarar og ef Haukar klára sitt þá verða þeir meistarar. Svo þurfa FH og ÍBV að treysta á önnur úrslit til að verða meistarar,“ sagði Ásgeir Örn.
Hér fyrir neðan má sjá Stefán og Ásgeir fara yfir alla leiki umferðarinnar.