Kazim-Richards varð fyrir kynþáttaníði á Instagram eftir 1-1 jafntefli Derby og Forest í ensku B-deildinni í febrúar á síðasta ári. Lögreglan í Derbyskíri rannsakaði málið og fann sökudólgana, þrjá drengi á aldrinum 12-14 ára. Þeir játuðu sök.
Strákunum verður ekki refsað heldur verður mál þeirra leyst með svokallaðri uppbyggilegri réttvísi. Fyrirtæki sem sérhæfir sig í því hefur verið fengið til að annast mál drengjanna.
Fyrirtækið ætlar meðal annars að koma á fundi milli Kazim-Richards og drengjanna sem sendu honum rasísk skilaboð fyrir ári síðan.
Kazim-Richards er fæddur og uppalinn á Englandi en er með tyrkneskan ríkisborgararétt og spilaði 37 leiki fyrir tyrkneska landsliðið á árunum 2007-15.
Hinn 35 ára Kazim-Richards hefur leikið með Derby frá 2020. Liðið er í harðri baráttu um að halda sæti sínu í B-deildinni þrátt fyrir að 21 stig hafi verið dregin af því vegna fjárhagsvandræða.