Framtíð Evrópumeistaranna er í mikilli óvissu eftir að eigur Abramovich, sem átt hefur Chelsea frá árinu 2003, voru frystar vegna meintra tengsla hans við Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Enn er þó mögulegt að félagið verði selt, að uppfylltum skilyrðum bresku ríkisstjórnarinnar um að Abramovich hagnist ekki á sölunni.
Chelsea fékk sérstaka undanþágu til að halda áfram starfsemi, þó ekki hefðbundinni, og lið félagsins geta því áfram spilað leiki og leikmenn þegið samningsbundin laun.
Chelsea má hins vegar ekki, frá og með gærdeginum, selja miða á leiki eða endursemja við leikmenn á borð við Antonio Rüdiger, Cesar Azpilicueta og Andreas Christensen sem allir verða samningslausir í sumar.
Að hámarki þrjár og hálf milljón króna í útileiki
Þá má félagið að hámarki verja 20.000 pundum til að ferðast í útileiki. Þó að íslensk félög myndu eflaust flest ráða við að fara í útileik fyrir 3,5 milljónir króna þá breytir þetta miklu fyrir stjörnurnar í Chelsea.
Kostnaðurinn við að ferðast í venjulegan útileik á Englandi er sagður mun hærri fyrir Chelsea, og óljóst er hvernig liðið á að fara að varðandi útileik sinn við Lille í Frakklandi í næstu viku, í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, samkvæmt fréttaskýringu BBC.
Borga leikmenn brúsann?
Hugo Scheckter, stofnandi Player Care samtakanna fyrir fótboltamenn, segir að venjulegur útileikur kosti lið í ensku úrvalsdeildinni 30.000 pund, eða 50% meira en Chelsea-menn mega eyða.
For context, a usual Premier League away game with a flight, security, food, hotels etc would be about £30k. Going abroad, don t see how they can do anything other than either commercial flights or drive their bus & significant drop in standard of hotel. Will make a big impact. https://t.co/23bSQuMA40
— Hugo Scheckter (@HugoScheckter) March 10, 2022
„Ég veit ekki hvernig þeir eiga þá að hafa efni á að fara út fyrir landsteinana öðruvísi en með áætlunarflugi eða með liðsrútunni, og með því að velja sér umtalsvert ódýrara hótel,“ sagði Scheckter og bætti við að 30.000 punda upphæðin væri varlega áætluð.
Komist Chelsea áfram í Meistaradeildinni gæti flóknara ferðalag en til Frakklands beðið liðsins.
Daily Mirror segir að á meðan að fátt bendi til þess að Chelsea muni ferðast í leiki í rútu eða gista á ódýrum hótelum geti það þó í versta falli gerst. Blaðið bendir hins vegar á að fræðilega séð ættu leikmenn að geta greitt ferða- og gistikostnað, og fyrir mat og öryggisgæslu.
„Á meðan að við höfum nógu margar treyjur og rútu til að koma okkur í leiki þá munum við mæta og við munum keppa af hörku,“ sagði Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, eftir 3-1 sigurinn gegn Norwich á útivelli í gær.