Joe er sex og hálfs árs strákur sem sendi Swindon Town bréf. Þar kemur fram að mamma hans hafi ekki efni á að kaupa miða á leiki liðsins enda eigi hún ekki fyrir mat ofan í fjölskylduna.
Swindon Town spilar í ensku D-deildinni og er þar í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppnina. Félagið var síðast í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 1993-94 en féll úr C-deildinni í fyrra.
Joe lét 26 penní fylgja með bréfinu og þau áttu að fara til Harry McKirdy, 24 ára framherji liðsins. McKirdy hefur skorað 10 mörk í 19 deildarleikjum á tímabilinu og er í miklu uppáhaldi hjá hinum sex ára Joe.
Swindon Town birti bréfið og það vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum. Um leið reyndu forráðamenn félagsins að hafa uppi á stuðningsmanninum sem var tilbúinn að gefa pening þrátt fyrir að lifa í svo mikilli fátækt.
Félagið vill hjálpa Joe og fjölskyldu hans með söfnun sem er þegar hafin. JustGiving síða hefur þegar safnað þúsund pundum og upphæðin á örugglega eftir að hækka mikið.
Verkefnið er að hafa uppi á Joe sem hefur slegið í gegn. Ljóst er að margir eru tilbúnir að hjálpa honum og fjölskyldu hans.
Swindon er 186 þúsund manna borg í suðvesturhluta Englands í um 114 kílómetra fjarlægð vestur af London.