Þetta má lesa út úr nýjum greiðslukortatölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar (RSV) en heildarkortaveltan, sem nær þá bæði til innlendra og erlendra greiðslukorta, nam samtals 73 milljörðum króna og hækkaði um rúmlega 12 prósent frá fyrra ári.
Áfram er mikil aukning í kortaveltu í verslun á netinu sem jókst um 22 prósent í janúar og var samtals 11,3 milljarðar króna. Innlend netverslun hefur aukist um fjórðung á milli ára og ef horft er aftur til janúar 2020 þá nemur aukningin tæplega 200 prósentum.
Í frétt RSV kemur fram að þegar litið er til kortaveltu Íslendinga hér á lamdi þá hafi hún skipst þannig að 57 prósent fór í verslun en 43 prósent í þjónustu. Samdráttur í verslunartengdri veltu nam yfir 34 prósentum á milli mánaða á meðan þjónustutengd velta minnkaði um 19 prósent. Þar er um að ræða hefðbundinn árstíðabundinn samdrátt frá desember til janúar ár hvert.
Þrátt fyrir að netverslun innanlands hafi stóraukist á síðustu misserum þá er hlutfall hennar af heildarveltu í verslun ekki hátt og var 9,3 prósent í janúar á þessu ári. Tæplega 30 prósent af allri kortaveltu í bóka-, blaða- og hljómplötuverslun fór fram á netinu, 12,8 prósent af veltu í fataverslun en aðeins rétt rúmlega 5 prósent í stórmörkuðum og dagvöruverslun.
Hlutfall erlendrar kortaveltu af allri kortaveltu hérlendis nam tæplega 10 prósentum í janúar borið saman við 2,2 prósent árið áður. Kortaveltan minnkaði á milli mánaða um 19 prósent og var samtals 7,3 milljarðar.
Í nýjustu Peningamálum Seðlabankans, sem komu út í síðustu viku, kom fram að vísbendingar væru um að vöxtur einkaneyslu hefði sótt verulega í sig veðrið á fjórða fjórðungi og að vöxturinn á árinu 2021 hafi verið 6,8 prósent. Það er 1,5 prósentu meiri vöxtur en gert var ráð fyrir í nóvemberspá bankans.
Bakslag í viðureigninni við farsóttina gerir það hins vegar að verkum að horfur fyrir fyrsta fjórðung þessa árs hafa versnað og spáir Seðlabankinn 3,5 prósenta vexti í einkaneyslu á árinu 2020.