„Staðan er fín á hópnum. Tíu leikmenn sem æfa en fimm hvíldu,“ segir Ágúst en hvernig hefur gengið að ná mönnum niður eftir kraftaverkið gegn Frökkum?
„Það var góð stemning í gær en svo myndbandsfundur í hádeginu þannig að við munum undirbúa okkur vel fyrir erfiðan leik gegn Króötum.“
Ágúst er nýr í þjálfarateymi liðsins en hann er einnig aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins. Hann hefur notið tímans í Búdapest.
„Þetta hefur verið mjög gott. Ég vissi auðvitað að Guðmundur er mjög faglegur og Gunnar með honum. Þetta er virkilega skemmtilegt,“ segir aðstoðarþjálfarinn en hvernig hefur verið að glíma við öll þessi áföll?
„Þetta er hálfgerður sirkus á köflum en menn reyna að halda í léttleikann enda hlutir sem við ráðum ekkert við. Við pössum okkur og vonum að við sleppum sem eftir er. Þetta snýst um að taka einn dag í einu.“