Everton rak Rafael Benítez í gær eftir aðeins tvö hundruð daga í starfi en undir hans stjórn hafði Everton liðið tapað níu af síðustu þrettán leikjum sínum nú síðast á móti botnliði Norwich.
Það var ljóst í hvað stefndi eftir hræðilegar vikur hjá Everton liðinu og þrátt fyrir fína byrjun hjá Benítez þá voru hlutirnir fljótir að snúast honum í óhag.
Liverpool var að spila við Brentford á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í gær þegar fréttist af því að nágrannarnir væru búnir að reka Benítez. Viðbrögð Liverpool stuðningsmannanna var að syngja nafn Benitez.
Benitez fór tvisvar með Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildinnar. Undir hans stjórn vann Liverpool Meistaradeildina með eftirminnilegum hætti vorið 2005 eftir að hafa lent 3-0 undir í úrslitaleiknum á móti AC Milan.
Benitez gerði Liverpool einnig að enskum bikarmeisturum árið 2006 en engum stjóra félagsins hefur tekið að vinna enska bikarinn síðan. Besti árangur hans í ensku úrvalsdeildinni var annað sætið 2008-09.
Hér fyrir ofan má sjá og heyra stuðningsmennina heiðra Benitez með söngvum sínum.