Ademola Lookman skoraði eina mark leiksins þegar Leicester tók á móti Liverpool í gær. Kasper Schemichel átti einnig stóran þátt í sigri Refanna en hann varði vítaspyrnu Mohameds Salah í fyrri hálfleik.
Liverpool er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sex stigum á eftir toppliði Manchester City. Bilið breikkar enn frekar ef City vinnur nýliða Brentford í kvöld.
Klopp hefur kvartað mikið yfir leikjaálaginu á Englandi yfir hátíðirnar undanfarna daga. Liverpool fékk þó fimm daga frí fyrir leikinn í gær.
„Man. City hafa verið vægðarlausir að undanförnu en það er ekki áhyggjuefni Klopps. Það er frammistaða Liverpool. Hann getur ekki afsakað sig með að Liverpool hafi spilað tvo leiki á tveimur dögum. Frammistaða liðsins hans var flöt og það spilaði ekki vel,“ sagði Shearer á Amazon Prime eftir leikinn í gær.
„Þeir komust í góðar stöður en lokasendingarnar voru slakar. Þeir klúðruðu vissulega víti og Sadio [Mané] brenndi af dauðafæri. En þetta var ekki Liverpool eins og við erum vön að sjá.“
Næsti leikur Liverpool er gegn Chelsea á Stamford Bridge á sunnudaginn. Liðin eru jöfn að stigum í ensku úrvalsdeildinni.