Stjórnarandstæðingar segja að frumvarpinu hafi verið ætlað að þagga niður í gagnrýnisröddum gegn stjórnvöldum, en ef lögin hefðu náð fram að ganga hefði bandaríski fjölmiðlarisinn Discovery til dæmis neyðst til að selja hlut sinn í pólska fjölmiðlafyrirtækinu TVN.
Duda sagði eftir að hafa beitt neitunarvaldinu að lögin hefði haft mjög slæm áhrif á orðspor Póllands sem vænlegur fjárfestingastaður. Sagðist hann viðurkenna að lögin væru mjög óvinsæl meðal stórs hóps Pólverja, en þúsundir hafa mótmælt lögunum á götum Póllands úti síðustu vikurnar.
Lögin hefðu komið í veg fyrir að aðilar utan Evrópu hefðu getað eignast að minnsta kosti helmingshlut í pólskum fjölmiðlafyrirtækjum. Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið gagnrýndu fyrirhugaða lagasetningu.
Duda sagðist sammála því að réttast væri að koma í veg fyrir erlent eignarhald sem þetta. Sagði hann að réttara væri að það yrði gert síðar, en lögin hefðu tekið til aðila sem þegar væru á pólskum fjölmiðlamarkaði. Forsetinn sagðist á blaðamannafundi sömuleiðis hafa tekið tillit til þess að fjölbreytni væri á fjölmiðlamarkaði og tjáningarfrelsis.
Liðsmenn pólska stjórnarflokksins Lög og réttlæti hafa lengi sagt að erlend fjölmiðlafyrirtæki séu of áhrifamikil í Póllandi og skekki almenna umræðu í landinu.
Duda naut stuðnings Laga og réttlætis þegar hann bauð sig fram til forseta, en ákvörðun hans um að beita neitunarvaldi kann nú að hafa slæm áhrif á samband forsetans og helstu leiðtoga flokksins.