Það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu, en lengi hefur verið rætt um það að City vanti framherja í lið sitt. Pep Guardiola, þjálfari liðsins, sagði þó á blaðamannafundi í vikunni að hann ætlaði sér ekki að versla framherja þegar janúarglugginn opnar á næstu dögum.
Ferran Torres er nálægt því að ganga í raðir Barcelona frá Manchester City og brottför hans frá liðinu ýtir undir þörf Englandsmeistaranna á framherja. Guardiola lagði blessun sína á sölu Torres frá liðinu og sagði að hann myndi alltaf leyfa óánægðum leikmönnum að leita á önnur mið.
Salan á Torres mun skila allt að 55 milljónum punda í kassann hjá Manchester City og þá er félagið tilbúið að selja þrjá leikmenn í viðbót sem allir eru á láni hjá öðrum félögum um þessar mundir.
Í fyrsta lagi hefur Sporting í Portúgal möguleika á að kaupa Pedro Porro fyrir átta milljónir punda eftir að tveggja ára lánssamningur hans rennur út í sumar. Sögusagnir eru um áhuga frá Real Madrid á leikmanninum, en líklegt verður að teljast að Sporting nýti sér ákvæði í lánssamningnum sem gerir þeim kleift að kaupa leikmanninn sem hefur vaxið mikið í Portúgal.
Þá á Schalke möguleika á að kaupa japanska landsliðsmanninn Ko Itakura fyrir fimm milljónir punda og Bournemouth getur eignast enska unglingalandsliðsmanninn Morgan Rogers fyrir níu milljónir punda. Verðið fyrir Rogers hækkar þó í 12 milljónir punda ef Bournemouth mistekst að komast upp í ensku úrvalsdeildina.
Ef öll þessi viðskipti ganga í gegn gæti City safnað 75-80 milljónum punda, en samkvæmt klásúlu í samningi Haaland má hann yfirgefa Dortmund fyrir 75 milljónir punda.