Handbolti

Íslensk ættaði Daninn náði markameti í bestu deild heims í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hans Lindberg er enn að raða inn mörkum í þýska boltanum.
Hans Lindberg er enn að raða inn mörkum í þýska boltanum. EPA-EFE/LISELOTTE SABROE

Hans Lindberg hélt upp á fertugsafmælið sitt í ágúst en hann er enn að spila í þýsku deildinni og nú farinn að komast yfir met í deildinni.

Lindberg jafnaði markamet í þýsku Bundesligunni um helgina þegar hann skoraði ellefu mörk í sigurleik með Füchse Berlin.

Það voru ekki öll þessu ellefu mörk sem skiluðu Lindberg metinu heldur þau átta sem hann skoraði úr vítaköstum.

Með þeim er hann orðinn sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk úr vítaköstum í sögu deildarinnar. Lindberg deilir metinu með Dananum Lars Christiansen en þeir hafa skorað jafnmörg mörk úr vítaköstum. Hans eignast það því einn með næsta víti sínu.

Lindberg hefur nú skorað úr 1224 vítaköstum á ferli sínum í þýsku Bundesligunni. Mörkin eru orðin 2608 í 418 leikjum. Hans hefur nýtt 1224 af 1461 víti sínum sem gerir 84 prósent vítanýtingu.

Hans Lindberg kom inn í deildina árið 2007 og spilað með liði HSV Hamburg allt til ársins 2016. Frá árinu 2016 hefur hann spilað með Füchse Berlin.

Hans á íslenska foreldra, Tómas Erling Lindberg og Sigrúnu Sigurðardóttur, en ólst upp í Danmörku og ákvað að spila fyrir danska landsliðið en ekki það íslenska.

Hans hefur skorað 756 mörk í 272 landsleikjum og hefur bæði orðið heimsmeistari og Evrópumeistari með Dönum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×