Handbolti

Sagosen fær sand af seðlum hjá Kolstad

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sander Sagosen er að margra mati besti handboltamaður í heimi.
Sander Sagosen er að margra mati besti handboltamaður í heimi. getty/Andreas Gora

Norska handboltastjarnan Sander Sagosen þarf ekki að hafa áhyggjur af afkomunni eftir að hann gengur í raðir Kolstad sumarið 2023.

Forráðamenn Kolstad er stórhuga og eru byrjaðir að safna saman í nýtt ofurlið. Félagið hefur þegar samið við fjóra norska landsliðsmenn, Sagosen, Magnus Rød, Torbjørn Bergerud og Magnus Gullered, og íslensku landsliðsmennina Sigvalda Guðjónsson og Janus Daða Smárason. Þeir fjórir síðastnefndu koma til Kolstad næsta sumar en Sagosen og Rød sumarið 2023.

Matvörukeðjan Rema 1000 er stærsti styrktaraðili Kolstad og félagið er afar fjársterkt, svo mjög að það getur keppt við stærstu félög Evrópu um leikmenn.

Talið er að Sagosen hafi fengið sex milljónir norska króna í árslaun hjá Kiel, eftir skatta. Það gerir rúmlega 92 milljónir íslenskra króna. Í samtali við VG staðfesti Sagosen að hann fengi ekki lægri laun hjá Kolstad en hann fær hjá Kiel.

Raunar mun hann fá mun hærri laun hjá Kolstad ef marka má frétt VG. Þar kemur fram að Sagosen fái rúmlega tíu milljónir norskra króna í árslaun hjá Kolstad. Það samsvarar rúmlega 153 milljónir íslenskra króna. Það er nemur nánast jafn miklu og öllum launakostnaði Elverum, besta liðs Noregs, á ári.

Sagosen er uppalinn hjá Kolstad en fór frá félaginu þegar hann var sautján ára. Nú á hann að hjálpa Kolstad að komast í fremstu röð í Evrópu.

Mikið er óunnið hjá Kolstad en liðið er í 9. sæti norsku úrvalsdeildarinnar og tapaði með tíu marka mun fyrir Haslum, 20-30, í síðasta leik sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×