Blaðamaðurinn Stuart James kom hingað til lands í aðdraganda leiks Íslands og Armeníu í undankeppni HM í byrjun þessa mánaðar og ræddi við fjölda fólks.
Þeirra á meðal er Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir. Hún er verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur og var falið að stýra jafnréttishópi KSÍ.
Hún segir engar vísbendingar um að fótboltamenn eigi í meiri vandræðum í samskiptum við konur en menn úr öðrum starfsgreinum á Íslandi. Kolbrún veltir þó fyrir sér þeim undirliggjandi skilaboðum sem fótboltamenn fá vegna stöðu sinnar og hvernig þau breyta skynjun þeirra á veruleikann, sérstaklega þegar þeir byrja að spila fyrir landsliðið.

Kolbrún vísar til gullkynslóðarinnar svokölluðu, sem fór á EM U-21 ára 2011 og átti svo stóran þátt í að koma A-landsliðinu á tvö stórmót. Nokkrir úr þeim hópi hafa verið ásakaðir um kynferðis- og ofbeldisbrot.
„Þeir voru hetjurnar okkar og allir elskuðu þá. En við það fjarlægðust þeir raunveruleikann,“ segir Kolbrún.
„Að sjálfsögðu fengu þeir mikla athygli frá stelpum og konum og ég held að þeir hafi ekki vitað hvernig þeir áttu að takast á við það. Og ég held að þeir hafi misnotað aðstöðu sína of oft og fundist þeir eiga rétt á því sem þeir gerðu,“ bætir Kolbrún við.
Nálgast má grein The Athletic með því að smella hér en kaupa þarf aðgang til að lesa hana.