Glódís kom til Bayern frá Rosengård í júlí og þrátt fyrir að hafa meiðst á undirbúningstímabilinu fékk hún fljótt tækifæri í byrjunarliði og virðist hafa stimplað sig vel inn í liðið.
Þær Karólína og Glódís verða líklega í eldlínunni á morgun þegar Ísland mætir Kýpur á Laugardalsvelli í undankeppni HM. Á blaðamannafundi fyrir landsleikinn var Karólína spurð hvernig væri að hafa fengið Glódísi til München:
„Það er búið að vera stórkostlegt. Ég get ekki kvartað. Hún og Kristófer [Eggertsson, sambýlismaður Glódísar] eru búin að hugsa um mig eins og mamma og pabbi. Það er búið að vera yndislegt,“ sagði Karólína létt.
Karólína er aðeins tvítug en hefur þegar landað Þýskalandsmeistaratitli með Bayern. Þó að Glódís sé aðeins sex árum eldri dregur Karólína ekkert úr því að sér líði eins og hún sé komin með nýtt sett af foreldrum til Þýskalands:
„Þau eru dugleg að bjóða manni í mat og maður er bara orðinn eitthvað litla barn þarna,“ sagði Karólína spaugsöm, en var svo fljót að bæta við hve góð áhrif Glódís hefði einnig haft innan vallar:
„Svo hefur Glódís komið fáránlega vel inn í liðið. Maður sér núna hversu frábær íþróttakona hún er – smellpassaði bara inn í hópinn og ég held að hún sé strax orðin ein af lykilmönnunum.“