Alexandra leikur með einu besta liði Þýskalands, Frankfurt, og hefur þegar leikið 15 A-landsleiki. Hún segir alla í íslenska hópnum gera sér grein fyrir því að á Laugardalsvelli á morgun verður afar mikið undir í baráttunni um að komast á HM í Ástralíu.
„Þó að völlurinn hafi verið svolítið frosinn í gær þá hafa gæðin á æfingunum bara verið flott. Það eru allir leikmenn heilir og tilbúnir í þetta,“ sagði Alexandra.
„Við gerum okkur allar grein fyrir mikilvægi leiksins. Það eru samt allir leikir í þessum riðli úrslitaleikir. Við þurfum öll stig sem við getum fengið,“ sagði Alexandra en viðtalið við hana má sjá hér að neðan.
Ísland tapaði 2-0 í fyrsta leik í undankeppninni gegn Evrópumeisturum Hollands í síðasta mánuði. Hún vill sjá betri frammistöðu á morgun:
„Við þurfum að vera óhræddar við að halda í boltann meira. Við erum með gæði inni á vellinum til þess að halda í boltann og þurfum að sýna þau. Við þurfum að pressa á réttum stundum og þora að stíga fram. Við féllum svolítið aftur gegn Hollandi og við miðjumennirnir vorum bara komnar niður í varnarlínu. Við þurfum að þora að pressa á þær,“ segir Alexandra.
Ísland gerði tvö jafntefli við Tékkland í síðustu HM-undankeppni. Seinna jafnteflið var á Laugardalsvelli haustið 2018 en sigur hefði dugað Íslandi til að komast í umspil. Því er að minnsta kosti hluti af íslenska liðinu sjálfsagt í hefndarhug:
„Við erum svo margar ungar í liðinu að við vorum ekki partur af þessu. Þessar eldri eru með blóðið á tönnunum og við þessar yngri erum líka tilbúnar og viljum öll þrjú stigin.“