Guðný lék allan leikinn í stöðu hægri bakvarðar þegar Ísland tapaði fyrir Hollandi, 0-2, í fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2023 í síðasta mánuði. Framundan eru tveir leikir í undankeppninni, gegn Tékklandi annað kvöld og Kýpur á þriðjudaginn.
„Mér líst vel á að spila hægri bakvörð. Ég er að spila hægra megin í þriggja manna vörn úti þannig að það er blanda af hægri bakverði og miðverði. Það er gaman að fá að spila og að prófa nýjar stöður,“ sagði Guðný á blaðamannafundi í gær.
Hún var nokkuð sátt með frammistöðu sína í leiknum gegn Hollandi. Þar fékk hún það hlutverk að gæta Lieke Martens, eins allra besta leikmanns heims.
„Í fyrri hálfleik var ég svolítið týnd, var ekki alveg rétt staðsett alltaf. En svo fannst mér ég bara vinna mig inn í leikinn og leið betur þegar leið á hann. Það er kannski klassískt fyrir fyrsta leik í þessari stöðu.“

Hún segist ekki vita hvort hún sé fyrsti kostur í stöðu hægri bakvarðar í landsliðinu en er tilbúin að leysa þá stöðu verði þess óskað.
„Ég veit það ekki. Við erum nokkrar að berjast um þessa stöðu en af því að ég er hugsuð sem hægri bakvörður vil ég klárlega gera mitt besta til að halda henni. Ég þarf bara að standa mig í leikjum og á æfingum til þess að gera það,“ sagði Guðný.
Hafnfirðingurinn segir að leikurinn gegn Tékkum á morgun verði erfiður og Íslendingar þurfi að spila vel til að vinna.
„Tékkarnir líta vel út af því sem við höfum séð. Þær eru vel spilandi, vilja halda boltanum og eru með sterka leikmenn í sínu liði. Við þurfum bara að mæta klárar í þann leik og spila okkar besta leik til þess að ná í úrslit. Við þurfum að fara í þennan leik og ná í þrjú stig og þá erum við í góðri stöðu myndi ég segja,“ sagði Guðný sem hefur leikið ellefu landsleiki.