Fótbolti

Ætlar ekki í bólusetningu þrátt fyrir að hafa tvisvar smitast af veirunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Callum Robinson hefur ekki hug á að láta bólusetja sig.
Callum Robinson hefur ekki hug á að láta bólusetja sig. getty/Stephen McCarthy

Þrátt fyrir að hafa smitast af kórónuveirunni í tvígang ætlar írski landsliðsmaðurinn Callum Robinson ekki að láta bólusetja sig.

Robinson, sem leikur með West Brom í ensku B-deildinni, smitaðist fyrst af veirunni í nóvember í fyrra og aftur í ágúst á þessu ári. Í seinna skiptið missti hann af leik Írlands og Portúgals í undankeppni HM 2022. Þótt Robinson hafi tvisvar smitast af veirunni hefur hann ekki enn farið í bólusetningu.

„Ég hef ekki látið bólusetja mig. Það er mitt val á þessari stundu,“ sagði Robinson. Hann vildi þó ekki svara því af hverju hann hafnaði bólusetningu.

„Ég hef bara ekki gert það. Það er bara þitt val og ég hef ekki farið í bólusetningu. Það eru leikmenn og þjálfarar sem vilja að þú gerir það, og þeir hafa rétt á þeirri skoðun, en allir eiga val. Ég myndi ekki neyða fólk til að fara í bólusetningu. Þetta er þitt val og þinn líkami.“

Í síðustu viku var greint frá því að í aðeins sjö af tuttugu liðum í ensku úrvalsdeildinni væri meira helmingur leikmanna fullbólusettur.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, furðaði sig á þeim óbólusettu og sagði að það væri eins og að keyra undir áhrifum áfengis.

Robinson og félagar í írska landsliðinu mætir Aserbaídsjan í undankeppni HM á laugardaginn og Katar í vináttulandsleik á þriðjudaginn. Írar hafa aðeins unnið einn af sextán leikjum sínum undir stjórn Stephens Kenny sem tók við liðinu í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×