Þungt hljóð er í heimamönnum í Grikklandi vegna gróðureldanna sem hafa geisað í landinu að undanförnu. Þúsundir hafa flúið heimili sín vegna eldanna, sem stafa af mestu hitabylgju sem gengið hefur yfir landið í þrjátíu ár.
Miklir eldar geisa á eyjunni Evia, næststærstu eyju Grikklands, þar sem mikil eyðilegging hefur átt sér stað.
„Þetta er eins og í hryllingsmynd,“ er haft eftir Minu, 38 ára óléttri konu, á vef Reuters. Var verið að flytja hana á brott frá bænum Pefki á eyjunni, á sama tíma og askan féll allt í kring.
„Þetta er samt ekki kvikmynd, þetta er raunveruleikinn og þetta er sá hryllingur sem við höfum þurft að lifa við undanfarna viku,“ segir Mina.
Gróðureldarnir hafa brunnið á þúsundum hektara á eyjunni og umkringt bæi og heimili.
Meira en tvö þúsund íbúar eyjunnar hafa verið fluttir á brott. Herinn hefur verið kallaður til við að aðstoða við slökkvistarf auk þess sem aðstoð hefur borist frá Frakklandi, Egyptalandi, Sviss og Spáni.