Rússar fóru snemma af stað með bólusetningar en þær hafa ekki gengið jafn vel og víða annars staðar. Það má meðal annars rekja til vantrausts landsmanna á bóluefninu Spútnik en um 62 prósent þjóðarinnar segjast ekki vilja láta bólusetja sig með efninu.
Stjórnvöld gripu því til þess ráðs fyrir um viku síðan að tilkynna að að minnsta kosti 60 prósent starfsmanna í þjónustu þyrftu að hafa þegið að minnsta kosti einn skammt af bóluefninu fyrir 15. júlí næstkomandi.
Dmitry Peskov, talsmaður ríkisstjórnarinnar, sagði bólusetningar enn valkvæðar en játti að það gæti haft það í för með sér að viðkomandi þyrftu að leita að nýjum störfum.
Það fylgir ekki fregninni hvernig reglunum verður framfylgt.
Frá og með gærdeginum verða Moskvubúar einnig að geta framvísað bólusetningarvottorði eða sönnun neikvæðs PCR prófs eða gamallar Covid-sýkingar áður en þeim er hleypt inn á kaffihús og veitingastaði.
Kórónuveirusýkingum í landinu fer fjölgandi og borgarstjóri Moskvu, Sergey Sobyanin, sagði í gær að álagið hefði aukist á sjúkrahúsum borgarinnar. Þá hefðu met fallið í síðustu viku bæði hvað varðar fjölda innlagna, fjölda á gjörgæslu og fjölda dauðsfalla.
Samkvæmt opinberum tölum eru 16,7 milljónir af 146 milljónum Rússa fullbólusettir.