Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan:
Þar sjást þrír lögreglumenn í bænum Teplice í norðurhluta Tékklands handtaka Rómana á götunni. Á meðan einn þeirra heldur fótum hans föstum virðist annar lögreglumaður krjúpa á hálsi hans og reyna að handjárna hann.
Maðurinn lést í sjúkrabíl eftir handtökuna. Hann hét Stanislav, var um fertugt og var heimilislaus. Hann starfaði þó sem öryggisvörður í kjörbúð í bænum.
Jozef Miker, sem er einna fremstur meðal aðgerðarsinna úr hópi Rómana í Tékklandi, ræddi atvikið við The Guardian. Hann segir að Stanislav hafi séð mann nokkurn vinna skemmdir á bíl og hafi þá farið að honum til að stöðva hann. Þegar lögregla kom á svæðið hafi hún hins vegar haldið að Stanislav væri þrjóturinn og keyrt hann niður í götuna.
Myndbandið af atvikinu hefur dreifst víða og vilja margir bera dauða Stanislavs við George Floyd í Bandaríkjunum.
Fordómar gegn Rómönum í Evrópu hafa lengi verið stórt vandamál og hefur Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi gagnrýnt tékknesk stjórnvöld fyrir að halda ekki nógu vel utan um gögn um mismunun á Rómönum í landinu.