Cummings er ósáttur við hvernig Johnson brást við kórónuveirufaraldrinum í Bretlandi, en hann lét af störfum sem sérstakur ráðgjafi hans seint á síðasta ári. Í bloggfærslum sem Cummings hefur birt nýlega deilir hann skjáskotum sínum af samskiptum sem hann segir vera við forsætisráðherrann.
Skrifstofa forsætisráðherrans hefur ekki neitað því að um ósvikin samskipti milli Johnson og Cummings sé að ræða, eftir því sem breska ríkisútvarpið greinir frá.
Vonsvikinn með gang skimana
Eitt skjáskotanna virðist vera síðan í mars í fyrra. Þar tjáir Cummings forsætisráðherranum Johnson að Bandaríkin hafi aukið til muna getu sína til að skima fyrir Covid-19 og lýsti því að Bretland hefði sagst ætla gera slíkt hið sama, en mistekist.
Þá segir hann að Hancock segðist fullur efasemda um að ná settum markmiðum hvað varðar skimun.
Við því hafði Johnson stutt svar, sem þó hefur verið hulið að hluta, líklega vegna blótsyrðis sem forsætisráðherrann hefur notað: „Algjörlega ******* vonlaus.“