Neil Ferguson, sem er prófessor í smitsjúkdómafræðum við Imperial College London, sagði í samtali við Today á BBC Radio 4 að Delta-afbrigðið virtist um það bil 60 prósent meira smitandi en Alfa-afbrigðið en sagði hlutfallið 30 til 100 prósent eftir því hvernig gögnin væru túlkuð.
Ferguson sagði að tilfelli Delta-afbrigðisins tvöfölduðust á níu daga fresti víðast hvar í landinu en sagði enn óvíst hvaða áhrif fjölgunin hefði á sjúkrahúsinnlagnir. Þá sagði hann einnig óljóst hversu vel bóluefni virkuðu gegn afbrigðinu, en það myndi hafa úrslitaáhrif á umfang mögulegrar þriðju bylgju faraldursins á Bretlandseyjum.
Bretar bíða þess nú í ofvæni að vita hvort áætlun stjórnvalda um að aflétta sóttvarnaaðgerðum 21. júní næstkomandi gengur eftir. Forsætisráðherrann Boris Johnson er sagður nokkuð bjartsýnn en Guardian hefur eftir heimildarmanni í forsætisráðuneytinu að næstu dagar muni skera úr um áhrif afléttinganna 17. maí síðastliðinn.
Heilbrigðisráðherrann Matt Hancock segir teikn á lofti um að bólusetningar væru að hafa þau áhrif að færri smitaðir væru að leggjast inn á sjúkrahús.
Talsmenn bresku ferðaþjónustunnar hafa brugðist haraklega við ákvörðun yfirvalda um að færa Portúgal af lista yfir „græn“ ríki og segja hana setja ferðasumarið í uppnám.