Handbolti

Grótta biðst afsökunar framkomu stuðningsmannanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grótta hefur beðist afsökunar á framferði stuðningsmanna liðsins.
Grótta hefur beðist afsökunar á framferði stuðningsmanna liðsins. mynd/fésbókarsíða Gróttu

Handknattleiksdeild Gróttu hefur sent frá sér afsökunarbeiðni vegna framkomu stuðningsmanna liðsins í leikjunum gegn ÍR í umspili um sæti í Olís-deild kvenna.

Karen Ösp Guðbjartsdóttir, markvörður ÍR, lýsti upplifun sinni af framkomu stuðningsmanna Gróttu í Bítinu á Bylgjunni. Þar sagði hún að stuðningsmennirnir hefðu gert grín að útliti og vaxtarlagi leikmanna ÍR. Karen viðurkenndi að ummælin hefðu haft áhrif á hana og eyðilagt upplifun hennar af leikjunum, sérstaklega oddaleiknum í fyrradag.

Handknattleiksdeild Gróttu hefur beðist afsökunar á framkomu stuðningsmannnna og fordæmt hana.

„Handknattleiksdeild Gróttu harmar ummælin og biður alla hlutaðeigandi afsökunar á atvikinu. Háttsemi sem þessi er úr öllum takti við það sem félagið vill standa fyrir. Gildir einu við hvaða aðstæður ummælin eru látin falla eða til hverra þau ná. Þau eru í andstöðu við siðareglur Íþróttafélagsins Gróttu og stefnu handknattleiksdeildar,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Þar kemur einnig fram að stuðningsmennirnir harmi framkomu sína og afsökunarbeiðni hafi verið komið til leikmanna ÍR.

Grótta mætir HK í úrslitum umspils um sæti í Olís-deildinni. Fyrsti leikur liðanna fer fram í Kórnum á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×