Samkvæmt þessari ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans eru meginvextir nú eitt prósent. Helstu ástæður eru miklar hækkanir á verði hrávöru í útlöndum eins og olíu og aukinn verðbólguþrýstingur innanlands vegna mikillar hækkunar launa og fasteignaverðs, að mati peningastefnunefndar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir efnahasáfall þjóðarbúsins nú vera vegna mikils samdráttar í útflutningi þjónustu. Það er að segja vegna hruns ferðaþjónustunnar.

„Við erum að sjá verðbólgan er að hækka aðeins meira en við höfðum búist við. Við gáfum töluvert mikinn slaka út á síðasta ári. Lækkuðum vexti niður í 0,75 prósent. Þessar vaxtalækkanir eru að virka mjög vel og í ljósi þess teljum við að við þurfum að toga aðeins til baka,“ segir Ásgeir. Með öðrum orðum eftirspurn og neysla hefur aukist of mikið að mati bankans.
Verðbólga nú mælist 4,6 prósent sem er mun meiri verðbólga en fyrri spár höfðu gert ráð fyrir. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5 prósent. Fyrri spár höfðu gert ráð fyrir að verðbólga færi að ganga niður í upphafi þessa árs, síðan á haustmánuðum þessa árs en nú er reiknað með að hún fari ekki að hjaðna fyrr en í upphafi næsta árs og hún verði komin að markmiðinu eftir um ár.
Ásgeir segir hækkun vaxta nú meðal annars hafa áhrif á fjármögnun húsnæðislána.
„Þá hægir vonandi aðeins á fasteignamarkaðnum. Líka aðrir þættir, það verður þá dýrara að taka lán og skuldsetja sig. Þannig að við erum aðeins mildilega séð að reyna að hægja á hagkerfinu. Svo hillir undir að farsóttin verði á enda og þá væntanlega fer ferðaþjónustan að taka við sér,“ segir Ásgeir.
Reiknað er með að farþegum til landsins fjölgi minna á þessu ári en áður var spáð og þeir verði rúmlega 600 þúsund. Þeir verði hins vegar 1,5 milljónir á næsta ári og hagvöxtur verði þá fimm prósent.