Nokkur spenna hefur verið varðandi þessa stýrivaxtaákvörðun bankans. Þannig spáði Hagfræðideild Landsbankans að vextir myndu haldast óbreyttir en Greining Íslandsbankans spáði 0,25 prósenta hækkun stýrivaxta.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að efnahagsbatinn hafi verið kröftugri á seinni hluta síðasta árs en áður hafi verið talið. „Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í maíhefti Peningamála eru horfur á liðlega 3% hagvexti í ár og yfir 5% hagvexti á næsta ári. Horfur hafa batnað frá fyrri spá bankans og vega þar þyngst vísbendingar um meiri bata innlendrar eftirspurnar. Atvinnuleysi hefur hjaðnað þótt það sé enn mikið. Slakinn í þjóðarbúskapnum virðist því vera minni og útlit er fyrir að hann hverfi fyrr en áður var talið.
Framboðstruflanir vegna COVID-19-farsóttarinnar hafa hækkað kostnað við að framleiða og dreifa vörum um allan heim og alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hefur einnig hækkað mikið undanfarið. Þessar hækkanir kunna þó að vera tímabundnar.
Verðbólga hefur því reynst meiri og þrálátari en áður var spáð og mældist 4,6% í apríl. Verðbólguþrýstingur virðist almennur enda mælist undirliggjandi verðbólga svipuð og mæld verðbólga. Margt leggst þar á eitt eins og áhrif gengislækkunar krónunnar í fyrra og miklar hækkanir launa og húsnæðisverðs. Því er nauðsynlegt að hækka vexti bankans til þess að tryggja kjölfestu verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiðinu.
Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma,“ segir í yfirlýsingunni.
Gera grein fyrr ákvörðuninni
Næsta ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans verður 25. ágúst næstkomandi.
Klukkan 9:30 hefst vefútsending þar sem Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu og staðgengill formanns, og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu, munu gera grein fyrir ákvörðun nefndarinnar. Hægt verður að fylgjast með fundinum á Vísi.
Fréttin hefur verið uppfærð.