„Ég hefði eiginlega ekki getað fengið betra tækifæri, vera með Guðjón Val sem er sá besti í minni stöðu. Svo er algjör plús að vera með Elliða þarna. Ég er með smá öryggisnet þarna og þetta er líka gott lið,“ sagði Hákon í samtali við Vísi.
Gummersbach er sem stendur í 3. sæti þýsku B-deildarinnar, einu stigi frá efstu tveimur liðunum. Hákon vonast að sjálfsögðu til að Gummersbach komist upp í úrvalsdeildina en félagaskiptin velta ekki á því. Hann spilar með Gummersbach sama í hvorri deildinni liðið verður.
„Það gerist bara ef það gerist,“ sagði Hákon. Ekki er langt síðan hann heyrði fyrst af áhuga Gummersbach.
Greip mig strax
„Það eru kannski tvær vikur síðan. Þetta hefur gerst frekar hratt,“ sagði Eyjamaðurinn. Aðrir kostir voru í stöðunni en Gummersbach var alltaf sá fyrsti eftir að félagið kom inn í myndina.
„Það var áhugi frá öðru félagi sem mér fannst ekki alveg nógu heillandi. En þetta greip mig strax og var eina alvöru tilboðið sem ég fékk. Þetta var aldrei spurning,“ sagði hornamaðurinn sem er markahæstur í Olís-deildinni með 138 mörk.

Hákon hefur lengi sett stefnuna á að komast í atvinnumennsku en það markmið var nokkuð fjarlægt á tímabili.
„Þetta er draumur manns, að komast að erlendis og spila á stærra sviði en heima og komast sem lengst í handboltaheiminum og í landsliðið. Á tímabili fannst mér ég vera rosalega langt frá þessum draumi. Þannig var tilfinningin. En síðustu tvö árin hef ég færst ótrúlega hratt nær draumnum,“ sagði Hákon.
Hann ætlar sér að kveðja ÍBV með stæl. „Markmiðið hjá mér og liðunum sem ég hef verið í er alltaf að berjast um alla titla. Og það breytist ekkert. Maður heldur bara áfram að berjast fyrir Bandalagið.“
Finnur ekki svona samstöðu annars staðar
Hákon segir að allt umhverfið hjá ÍBV komist eins nálægt því að vera eins og hjá atvinnumannafélagi og hægt er.
„Ég er með Erling [Richardsson] sem er geðveikur þjálfari og hefur hjálpað mér mikið. Ég hef lent á mörgum veggjum undanfarin ár en hef fengið ótrúlega góða hjálp, bæði frá þjálfurum, leikmönnum og fólkinu í Eyjum,“ sagði Hákon.

„Þetta kemst næst því að vera í atvinnumennsku eins og hægt er. Hvernig er æft og hversu mikið og hvað er haldið vel utan um leikmenn. Þú ert í svolítið vernduðu umhverfi í Vestmannaeyjum. Þú ert svo tengdur inn í samfélagið og allir spyrja þig úti í búð hvenær næsti leikur sé og ræða um frammistöðuna. Þú finnur ekki svona mikla samstöðu annars staðar.“