Þetta sagði Bourla í samtali við CNBC fyrr í vikunni, en hann segist vona að allt gangi að óskum og lyfið komi vel út úr tilraunum. Ef allt gangi eftir og það fái samþykki matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna verði hægt að dreifa því um Bandaríkin undir lok árs.
Lyfið tilheyrir flokki lyfja sem kallast próteasahemlar og hefur áhrif á ensím í líkamanum sem vírusinn þarf á að halda til þess að fjölga sér í frumum líkamans. Tilraunir með lyfið hófust í mars síðastliðnum, en próteasahemlar hafa einnig verið notaðir til þess að meðhöndla aðra veirusjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu C.
Á vef CNBC segir að sérfræðingar fagni því að slíkt lyf sé í vinnslu, þar sem það gæti skipt sköpum í baráttunni við veiruna. Fólk sem hefði smitast gæti því nálgast lyfið án þess að þurfa að leita á sjúkrahús.
Samhliða þessu vinnur Pfizer nú að þróun bóluefnis fyrir börn á aldrinum sex mánaða til ellefu ára, en slíkt hefur verið talið nauðsynlegt til þess að binda enda á faraldurinn. Fyrirtækið sendi beiðni til matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna í síðasta mánuði um að heimila notkun fyrra bóluefnis fyrir unglinga á aldrinum tólf til fimmtán ára eftir að rannsókn sýndi fram á 100 prósent virkni.