Á þriðjudagskvöldið var greint frá því að Woodward myndi hætta sem stjórnarformaður United í árslok. Fréttirnar komu á svipuðum tíma og ensku félögin greindu eitt af öðru frá því að þau hafi hætt við þátttöku í ofurdeildinni svokölluðu.
Þátttaka United í ofurdeildinni mæltist afar illa fyrir hjá stuðningsmönnum United og þá gagnrýndi Aleksander Ceferin, forseti UEFA, Woodward harðlega fyrir hans þátt í stofnun ofurdeildarinnar.
Í gær bárust fréttir af því að Woodward hefði alltaf verið efins um ofurdeildina og hreinlega ákveðið að hætta hjá United vegna andstöðu við hana.
Ekki eru allir sem taka þessa skýringu trúanlega og finnst sem Woodward sé þarna að lappa upp á laskað orðspor sitt. Meðal þeirra er Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði United. Hann deildi frétt BBC um að Woodward hafi ekki getað stutt ofurdeildina með með broskalli sem er grenjandi úr hlátri.
— Gary Neville (@GNev2) April 22, 2021
Neville hefur verið ófeiminn við að gagnrýna Woodward í gegnum tíðina. Hann tók við sem stjórnarformaður United 2013, eða eftir að Sir Alex Ferguson hætti sem knattspyrnustjóri liðsins. Síðan þá hefur United ekki verið nálægt því að verða Englandsmeistari.
United var eitt sex enskra félaga sem tók þátt í stofnun ofurdeildarinnar ásamt Arsenal, Tottenham, Liverpool, Manchester City og Chelsea.