Liverpool er eitt þeirra tólf félaga sem komu að stofnun ofurdeildarinnar. Aðspurður í viðtali fyrir leikinn gegn Leeds United í gær kvaðst Klopp ekki vera alltof hrifinn af þessari nýju deild en hann hafi ekki haft neina aðkomu að málinu.
Í Monday Night Football á Sky Sports í gær sagði Carragher að stuðningsmenn Liverpool myndu taka til sinna ráða ef Klopp yfirgæfi félagið vegna þátttöku þess í ofurdeildinni.
„Ef þessi maður færi frá Liverpool vegna þess eða lenti saman við eigendurna myndu stuðningsmenn Liverpool hrekja þá í burtu á innan við viku. Ég er handviss um það,“ sagði Carragher.
„Þessi maður er sá valdamesti hjá félaginu. Það skal enginn halda að þótt Liverpool hafi átt erfitt uppdráttar á tímabilinu og Klopp hafi verið pirraður í nokkrum viðtölum að það sé einn stuðningsmaður Liverpool sem vilji ekki hafa Klopp við stjórnvölinn næstu þrjú til fjögur árin.“
"If that man left #LFC over this, the supporters would have the owners out within a week."@Carra23 highlights the importance of Jurgen Klopp at Liverpool after the manager spoke out against the European Super League. pic.twitter.com/thTDKrCeug
— Sky Sports Premier League (@SkySportsPL) April 20, 2021
Carragher segir að Liverpool sé sérstakt félag að því leyti hversu vinsæll stjóri þess er og í raun vinsælli en leikmennirnir.
„Það eru ekki mörg félög þar sem stjórinn er alltaf guðinn, alltaf kóngurinn. Rafa [Benítez], [Bill] Shankly, [Bob] Paisley. Þetta snýst ekki um leikmennina. Þetta snýst allt um stjórann og verður alltaf þannig,“ sagði Carragher.
„Það er ekki möguleiki að stuðningsmenn Liverpool myndu taka málsstað eiganda eða stjórnarformanns frekar en málstað stjórans, sérstaklega ekki stjóra sem er jafn valdamikill og farsæll og Jürgen Klopp.“
Liverpool gerði 1-1 jafntefli við Leeds í ensku úrvalsdeildinni í gær. Sadio Mané kom Liverpool yfir í fyrri hálfleik en Diego Llorente jafnaði fyrir Leeds skömmu fyrir leikslok.