Liggur því ekki endanlega fyrir hve margir missa vinnuna að svo stöddu en starfsfólki var tilkynnt um aðgerðirnar í dag. Í lok nóvember störfuðu 126 manns hjá félaginu hér á landi og má því ætla að skipulagsbreytingarnar hafi áhrif á um og yfir 30 manns.
Eftir að SaltPay keypti ráðandi hlut í Borgun í fyrra hefur verið greint frá því að tíu starfsmönnum hafi verið sagt upp í júlí síðastliðnum, þrettán í september og 29 í nóvember.
Fram kemur í tilkynningu frá SaltPay að nú sé aðallega um að ræða starfsfólk sem starfaði við að þróa og viðhalda eldra greiðslukerfi Borgunar. Ákvörðunin er sögð ekki hafa nein áhrif á viðskiptavini SaltPay á Íslandi.
Þurft að skipta út gömlu greiðslukerfi
Gengið var frá kaupum alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið SaltPay á tæplega 96% eignarhlut í Borgun í júlí í fyrra. Keypti félagið 63,5% hlut Íslandsbanka og 32,4% hlut Eignarhaldsfélagsins Borgun, sem er meðal annars í eigu Stálskipa og Einars Sveinssonar fjárfestis.
Að sögn SaltPay hefur frá þeim tíma staðið yfir rýning á öllum kerfum fyrirtækisins og hafin þróun á nýjum lausnum.
„Greiðslukerfi Borgunar var í grunninn byggt á kerfi sem orðið er hátt í fjörutíu ára gamalt og ljóst var frá upphafi að því þyrfti að skipta út. Sú vinna hefur staðið yfir og er komin á það stig að ekki verður þörf fyrir allt það starfsfólk sem sinnt hefur gamla kerfinu. Af þessu leiðir að fækkun verður á hugbúnaðarsviði, auk þess sem aukin sjálfvirkni og bætt tækni hefur áhrif til fækkunar á öðrum sviðum.“
„Rekstur fyrirtækisins hefur verið þungur á síðustu árum en þær aðgerðir sem gripið hefur verið til munu þýða að ekki þurfi að koma til frekari uppsagna.“
Fréttin hefur verið uppfærð.